Handknattleiksdeild Hauka réð í vikunni nýjan þjálfara meistaraflokks kvenna.  Árni Stefán Guðjónsson skrifaði þá undir tveggja ára saming við Hauka en Árni tekur við starfinu af Elíasi Má Halldórssyni sem fer á æskuslóðir að loknu tímabili og tekur við karlaliði HK.

Ráðningin er ekki síst athyglisverð fyrir þær sakir að Árni Stefán hefur verið harður FH-ingur frá blautu barnsbeini og ákvörðunin að semja við „erkifjendurna“ hefur líklega verið pínu erfið?

„Nei, í rauninni ekki. Ég hef lengi stefnt á að verða aðalþjálfari í meistaraflokki en var jafnframt búinn að átta mig á því að það er afar sjaldgæft að fá fyrsta tækifærið  hjá sínu uppeldisfélagi. Ég var í raun aldrei í vafa þegar þetta tækifæri bauðst hjá Haukum sem er flott félag í fremstu röð, rétt eins og FH,“ sagði Árni í samtali við Fjarðarpóstinn.

Guðjón Árnason, landsliðsmaður og goðsögn hjá handknattleiksdeild FH er faðir Árna. Blaðamaður hefur eðlilega áhyggjur af geðheilsu Guðjóns, nú þegar sonurinn er genginn til liðs við Hauka en Árni Stefán brosir bara.

“Nei nei, það er ekkert svoleiðis í gangi. Ég á blessunarlega stóra og þétta fjölskyldu sem stendur þétt við bakið á mér og það eru allir ánægðir með tækifærið sem mér er að bjóðast. Ef það eru einhverjar kyndingar í gangi, fara þær væntanlega bara beint í pósthólfið hjá pabba,“ sagði Árni léttur.

Árni Stefán er ekki fyrsti meðlimurinn í fjölskyldunni sem söðlar um innan Hafnarfjarðar og  kannski margir sem velta fyrir sér hvort að Haukar séu hægt og bítandi að stela þessari miklu FH-fjölskyldu.

„Nei, ég á stóra fjölskyldu og það er kannski eðlilegt að fólk skiptist eitthvað á milli félaga. Ég hef æft og starfað fyrir FH síðan ég var fimm ára en er þeirrar skoðunar að þrátt fyrir allan ríginn milli félaganna, þá hefur það verið Hafnarfirði mikill styrkur að eiga tvö lið í fremstu röð“

„Starfið leggst virkilega vel í mig. Það var frábært að finna strax fyrir þessum mikla áhuga sem Haukarnir sýndu mér og ekki skemmir að ég er að taka við frábæru búi af Ella og hans þjálfarateymi. Þetta er ungt og spennandi lið sem ætlar sér langt og það verður verðugt verkefni fyrir mig að koma okkur þangað sem við viljum vera. Umgjörðin er frábær í kringum liðið og mikill metnaður í Haukum, rétt eins og í FH. Ég er gríðarlega spenntur að fara af stað í nýju liði,“ sagði nýr þjálfari Hauka, Árni Stefán Guðjónsson.

Mynd: Haukar