72 stúdentar brautskráðust frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði í gær, 18. desember. Nemendur brautskráðust af félagsvísinda-, raunvísinda og viðskipta og hagfræðibraut en einnig af opinni námsbraut til stúdentsprófs. 21 af þessum nemendum útskrifaðist einnig af íþróttaafrekssviði skólans.

Dúx skólans að þessu sinni var Alexandra K. Hafsteinsdóttir

Veittar voru viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í ýmsum greinum og nutu skólinn og nemendur að venju, gjafmildi fyrirtækja og félagasamtaka, m.a. Rotaryklúbbs Hafnarfjarðar og Rio Tinto.

Diljá Pétursdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta og tilkynnti m.a. um styrk sem hópurinn ánafnar Barnaspítala Hringsins í nafni skólans.

Í ávarpi sínu ræddi Magnús Þorkelsson skólameistari m.a. um það leiðarstef skólans að mennta nemendur til farsældar, með áherslu á líðan, traust, öryggi og sjálfsrækt. Það gladdi hann að á alþjóðlegri ráðstefnu um menntamál nýlega hafi fyrirlesurum orðið tíðrætt um sambærileg hugtök. Einnig ræddi hann um hvernig skólinn reynir að ýta undir aukna samfélagsþátttöku nemenda með ýmsum verkefnum og taldi sig sjá aukningu í þátttöku ungmennanna. Hann nefndi til dæmis gleðigönguna, druslugönguna og loftslagsverkföllin sem ungmenni halda á föstudögum við alþingishúsið. Unga fólkið hugsar í lausnum og hver veit nema kjarni lausnanna liggi hjá þeim.

Veittur var styrkur úr Fræðslusjóði Jóns Þórarinssonar. Styrkþeginn að þessu sinni er María Jóna Helgadóttir. María stundar mastersnám við Gautaborgarháskóla, þar sem hún heldur áfram rannsóknum sínum á afkomu jökla og áhrifum loftslagsbreytinga á hana. Í BSc-ritgerð sinni við HÍ rannsakaði hún jökulinn Ok sem var nokkuð í fréttum á árinu, enda fyrsti jökull landsins sem er úrskurðaður horfinn, í tengslum við hlýnun loftslags.