Hjá Félagi eldri borgara í Hafnarfirði hefur í covid faraldrinum verið lögð áhersla á að hringja vikulega í eldri borgara í bænum sem eru 85 ára og eldri og fá ekki þjónustu frá fjölskyldu- og barnamálasviði. Í félagsmiðstöðinni Hraunseli er hátt til lofts og vítt til veggja. Húsnæðið eru um 600 fermetrar enda margir sem sækja starfsemina í 1850 manna félagi. Þeim sem koma er boðið upp á kaffi en nú á þessum tímum er fólk beðið um að hringja á undan sér ef það vill kíkja við, til að tryggja sem bestar sóttvarnir. Formaðurinn Valgerður Sigurðardóttir tók á móti okkur og sagði m.a. frá því hvernig aldursmatið hefur breyst á síðustu árum. 

Frá dæmigerðri jólasamkomu FEBH í Hraunseli, þegar mátti fjölmenna og sitja þétt. Mynd/OBÞ

Sjálf bættist Valgerður í hóp „löggildra“ eldri borgara á árinu. 60 ára og eldri eru á 4.000 manns í Hafnarfirði og hlutfall félagsmanna því ansi hátt í FEBH. „Hér liggja mörg félagsskírteini sem á eftir að sækja, félagsskírteinin eru afsláttarskírteini og er því hagur félagsmanna að vera með þau í veskinu. Sumir vilja fá þau send en það er þó alltaf mest gaman að fá að hitta fólkið sem er að ganga í félagið,“ segir Valgerður. Stjórn félagsins hafi lagt áherslu á lág félagsgjöld, 3000 krónur. „Hér er opið alla virka daga frá 08 – 16. Félag eldri borgara er einstaklega heppið með gott starfsfólk.Verkefnastjórinn og starfsstúlkurnar endurspegla með framkomu sinni og skipulagi öll faglegu markmiðin sem félagið stendur fyrir.“

Janus Guðlaugsson, þegar hann kynnti heilsueflingarverkefnið fyrir hafnfirskum eldri borgurum fyrir 2 árum. Það verkefni hefur bætt og lengt líf margra Hafnfirðinga. Mynd/OBÞ

Tæknikunnátta dregur úr einmanaleika

Valgerður segir að með símtölunum hafi komið fram að það er mikil umhyggjusemi í samfélaginu gangvart eldri borgurum á þessum tímum. „Það virðist sem enginn sé að skilja fólk eftir afskipt. Margir eru ekki búnir að tileinka sér rafrænt form þjónustu á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar. Landsamband eldri borgara lét útbúa bæklinga með leiðbeiningum fyrir síma, spjaldtölvur og tölvur. Slík kunnátta dregur úr einmanaleika og fólk getur æft sig í því að verja kvöldstundum saman með hjálp tækninnar.“ Hún segir hóp eldri borgara fara sístækkandi og að fólk sem sé að verða fullorðið í dag sé að mörgu leiti betur statt heilsufarslega, stundi fjölbreyttari áhugamál, geri aðrar kröfur og hafi þar af leiðandi önnur viðmið en kynslóðin á undan. „Það eru dæmi um að fólk á áttræðisaldri finnst það ekki vera nógu gamalt til að koma í félagið,“ segir Valgerður hlæjandi og bætir við dæmi: „Fyrir rúmum 30 árum var fólk gjaldfrítt við 70 ára aldur í félagi sem ég var í og í dag eru í FEBH 90 ára og eldri gjaldfríir en þann hóp skipa 94 einstaklingar. Það er því 20 ára breidd á aldursmati á þessum tímabili.“   

Gaflarakórinn og stjórnandi hans, Kirstjana Þ. Ásgeirsdóttir, taka lagið í Hraunseli. Mynd/OBÞ

Góð samskipti og fjárhagslegt sjálfstæði mikilvæg

Eldri borgarar í dag séu líka meira meðvitaðir um að viðhalda góðri heilsu sem lengst. „Mannleg samskipti hafi breyst. Það var miklu meira regluverk og stífni áður fyrr en núna er meira frelsi og frjálslyndi, opin umræða og sveigjanleiki. Líðanin hefur með þetta allt að gera.“ Valgerði finnst þó erfitt að vita til þess hversu fólk með lágan lífeyri mætir litlum skilningi. Fólk sem hafi þrælað alla sína tíð, greitt sína skatta en hefur ekki byggt upp nógu sterkan lífeyrir til framfærslu. „Almannatryggingakerfið er fyrsta stoð fyrir þetta fólk en ekki lífeyrissjóðskerfið sem er í raun framtíðar fyrsta stoð. Ellilífeyrir er 256.789 kr.fyrir skatta. Ef einstaklingur fær 25.000 kr. eða meira í lífeyri rýrnar ellilífeyririnn, en það kemur til vegna tekjutengingar. Fátækt heftar lífsgæði fólks. Sá sem ekki getur tekið þátt í samfélaginu vegna hennar einangrast. FEBH vinnur gegn félagslegri einsemd með starfi sínu alla daga. Fjárhagslegt sjálfstæði er mjög mikilvægt.“ 

Málverk Jóns Gunnarssonar listmálara prýða veggi húsnæðisins en beðið er tækifæris á að opna sýningu honum til heiðurs. Mynd/OBÞ

Að lokum nefnir Valgerður að bygging fjölbreytilegra búsetumöguleika fyrir eldri borgara og fjölgun hjúkrunarheimila verði að vera til hliðsjónar við hönnun og vinnu að skipulagsmálum í Hafnarfirði. Á þann hátt sé tryggð framtíð allra aldurshópa í bænum. Hún vill taka fram að Hafnarfjarðarbær sé mjög öflugur styrktaraðili við félagið og hafi alltaf verið. „Samvinna félagsins og bæjarins er til mikillar fyrirmyndar og það er litið til þess annars staðar frá. Einn sagði við mig á fundi um daginn: Við bara flytjum öll í Hafnarfjörð!“