Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði og formaður bæjarráðs, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar sem fram fara á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ágústi Bjarna.

Ágúst Bjarni var áður aðstoðamaður Sigurðar Inga Jóhannssonar. Ágúst segir í tilkynningunni að bæjarmálin í Hafnarfirði hafi átt hug hans allan undanfarin ár og muni eiga það áfram. „Það er heiður að fá að þjónusta bæjarbúa sem bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs. Við höfum gert góða hluti og félagshyggja Framsóknar hefur fengið að njóta sín í meirihlutasamstarfinu hér í bæ. Hafnarfjörður er góður bær og hér er gott að lifa og starfa. Umfangsmikil uppbygging er nú hefjast víða um bæinn sem er afrakstur mikillar vinnu í skipulagsmálum undanfarin tvö ár sem hefur verið gaman að taka þátt í. Ég brenn fyrir því að gera samfélagið okkar betra. Ég tel mig eiga erindi og tilkynni hér með um framboð mitt í 2. sæti á lista Framsóknar í SV fyrir þingkosningarnar 2021,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Framsókn náði einum manni í kjördæminu í síðustu kosningum, oddvitanum Willum Þór Þórssyni. 

Tveir Hafnfirðingar sitja nú á þingi, þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður þingflokks Flokks fólksins.

Mynd/aðsend