Formleg útskrift úr verkefninu Fjölþætt heilsuefling 65 ára og eldri í Hafnarfirði – leið að farsælum efri árum, á vegum Janusar heilsueflingar, fór fram í Hafnarborg í mars. Í mælingum kom í ljós að heilsumat þátttakenda hækkaði á tímum Covid, þrátt fyrir takmarkanir og lokanir. 

Janus Guðlaugsson útsrkifar nýjasta hópinn í mars. Mynd/Hafnarfjarðarbær

Glaður hópur þátttakenda sem lokið hafa þessu tveggja ára verkefni mættu til útskriftar og tók á móti útskriftarskírteini. Janus Guðlaugsson segir að Covid-19 hafi sett sitt strik á framkvæmd og fyrirkomulag, en samstilltur hópurinn undir forystu þjálfaranna hafi fundið leiðir til heilsueflingar þrátt fyrir lokanir og takmarkanir. „Við náðum mælingum í upphafi árs 2020 og svo aftur þegar gluggi opnaðist um sumarið og þá kom í ljós að heilsumat þátttakenda hækkaði á tímabilinu. Styrktaræfingar hafa mikið að segja með svona árangur og að viðhalda þeim. Það eru æfingar með teygjur, handlóð eða eigin líkamsþyngd.“

Kynningarfundur fyrir nýjan hóp verður haldinn fljótlega og áhugasamir geta skráð sig í verkefnið á rafræna kynningu á síðu Janusar heilsueflingar. Fyrirtækið hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði vegna þróunar á heilsuappi sem nú er tilbúið til notkunar fyrir alla þátttakendur. Með því er hægt að fylgjast með eigin þjálfun, árangri og mælingum. 

Í lífsgleðimælingum þátttakenda í heilsueflingu Janusar kom í ljós að heilsumat hækkaði á tímum Covid, þrátt fyrir takmarkanir og lokanir. 

Aldrei of seint að hefja virkan lífsstíl

Heilsuefling þarf að byggja á daglegri hreyfingu, styrktarþjálfun og fræðslu um næringu og aðra heilsutengda þætti. Ferli af þessum toga hefur fjölmörg áhrif á líkamlegar takmarkanir og veikindi. Heilsufarslegur ávinningur er háður líkamlegu formi eða afkasta getu hvers og eins. Tíðni æfinga og ákefð á æfingum eru mikilvægir þættir.

Janus mælir handstyrk þátttakanda. Mynd/Janus

Fjölmargir möguleikar eru til að efla heilsu og velferð, m.a. gönguferðir, sundferðir, skíðagöngur, að hjóla, dansa eða hlaupa. Mikilvægt er að stilla ákefð eða álagi í hóf og gefa sér tíma í að byggja upp ef hreyfing hefur ekki verið með reglulegu móti. 30 mínútur á dag, alla daga vikunnar, er æskilegt. Fjölbreytni í hreyfingu er mikilvæg. Slíkt reynir á alhliða vöðva líkamans. Æskilegt er að bæta við styrktarþjálfun a.m.k. tvisvar í viku. Liðleikaæfingar, teygjuæfingar og jafnvægisæfingar ættu einnig að vera á æfingaáætluninni. Þá er einnig mikilvægt að njóta hreyfingar og góður félagi eða félagar geta skipt sköpum. 

Fjölbreytni í hreyfingu er mikilvæg. Mynd/ÞS

Stiginn í stað lyftunnar og ganga í stað aksturs 

Við heilsueflingu þarf ekki að stefna að hámarksárangri eins og keppnisfólk, heldur að skipuleggja daglegt líf sitt með líkamlega virkni að leiðarljósi. Hér er t.d. átt við að nota stigann í stað lyftunnar og hreyfa sig frekar en að nota bílinn. Reglulegar gönguferðir án átaka geta jafnvel hjálpað til við að létta á sjúkdómum eða slappleika sem er fyrir, auk þess sem þær styðja við lækninga- eða uppbyggingaferli. 

Þau sem stunda líkams- og heilsurækt styðja hjarta- og æðakerfið, blóðþrýstingur helst stöðugur eða getur lækkað. Auk þess styrkir hreyfingin ónæmiskerfið og getur dregið úr hættu á sykursýki, beinþynningu og krabbameini. Nýlegar rannsóknir benda jafnvel til þess að að bættur lífsstíll, þar sem hreyfing er í hávegum höfð, geti hjálpað að koma í veg fyrir heilabilun eins og Alzheimer. Fjölbreytt daglegt líf með hreyfingu bætir andlega og félagslega líðan, dregur úr ótta og þunglyndi, stuðlar að jákvæðri líkamsvitund og sjálfstrausti. Daglegt líf verður og meira aðlaðandi með daglegri virkni.


Janus heilsuefling 

www.janusheilsuefling.is 

Þessi umfjöllun er kynning.