Við FH-ingar fögnum nú merkum áfanga, 90 ára sögu. Á tíma sem þessum er ánægjulegt að horfa til baka, rifja upp merka áfanga og ánægjulega sigra en um leið huga að nútíð og komandi árum. Fimleikafélag Hafnarfjarðar var stofnað 15. október 1929 af nokkrum ungum fimleikastrákum, en fyrstu árin voru fimleikar eina íþróttagreinin sem stunduð var í félaginu okkar. Seinna bættust við þær íþróttagreinar sem í dag eru stundaðar í félaginu þ.e. frjálsar, handbolti, fótbolti og skylmingar en fimleikar lögðust af innan félagsins.

Starfsemi íþróttafélaga hefur breyst mikið á síðustu áratugum og á það svo sannarlega við um félagið okkar. Starfsemi félagsins eins og annarra félaga var á hrakhólum fyrstu áratugina og i raun aðdáunarvert hvernig félagsmönnum og stjórnendum félagsins tókst að halda starfseminni gangandi í raun hálf heimilislausri. Á sjöunda áratugnum fóru hjólin að snúast varðandi heimilisfesti Fimleikafélagsins og þann 15. mars 1968 hófust framkvæmdir á félagssvæði okkar hér í Kaplakrika sem í dag er glæsilegasta íþróttasvæði landsins. Góð aðstaða og glæsileg mannvirki er ekki eitthvað sem kemur af sjálfu sér og ber okkur sem nú njótum ávaxta þeirra sem ruddu brautina af miklum eldmóði og framtíðarsýn að þakka þeirra góðu störf. Uppbyggingin hefur tekið sinn tíma, margir félagsmenn lagt á sig mikla vinnu og velunnarar veitt okkur fjárhagslegan stuðning. FH hefur ákveðna sérstöðu hvað varðar aðstöðuuppbyggingu íslenskra íþróttafélaga en þar á ég við að félagið sjálft hefur byggt og fjármagnað verulegan hluta íþróttamannvirkjanna í Kaplakrika. Nú í október mun síðan knatthúsið Skessan vera formlega tekið í notkun.

Þrír af dyggum stuðningsmönnum FH. Mynd/OBÞ

Önnur mannvirki í Kaplakrika hafa hafa verið byggð og síðan rekin í góðri samvinnu við Hafnarfjarðarbæ. Íþróttafélag er þó meira en uppbygging og rekstur íþróttamannvirkja. Íþróttastarfið sjálft er hjartað í félaginu. Nú sem stendur eru fjórar íþróttadeildir starfandi í félaginu, öflugar deildir með gott og þróttmikið barna- og unglingastarf ásamt afreksstarfi eins og það gerist best. Barna- og unglingastarfið í FH er eins og í öðrum íþrótta-og æskulýðsfélögum mikilvægasta uppeldis- og forvarnarstarf hvers byggðalags. Starf þetta er unnið í góðri samvinnu og samstarfi við bæjaryfirvöld og viljum við FH-ingar þakka stuðning Hafnarfjarðarbæjar á þessu sviði. Afreksstarf íþróttafélaga er mikilvægt og er það sá hluti starfsins sem mest er getið um í fjölmiðlum og þá helst þegar vel gengur og því er FH mikið í fjölmiðlum. Gott afreksstarf gefur af sér afreksfólk sem er unga fólkinu fyrirmyndir sem síðan eykur áhuga unga fólksins og þátttöku þeirra í skipulögðu íþróttastarfi. Afreksstarfinu þurfa yfirvöld á landinu að sinna betur og er Hafnarfjarðarbær þar engin undantekning.

Svona stemning er algeng á stórleikjum FH. Mynd/J.Long.

Fjármál íþróttafélaga og íþróttahreyfingarinnar eru oft til umfjöllunar og eru fjármál FH þar engin undantekning. FH er fjárhagslega mjög öflugt, eigið fé félagsins vel á annan milljarð, árleg velta slagar í milljarðinn og rekstrarafkoman verið jákvæð alla þessa öld. Fimleikafélagið hefur verið í fararbroddi þeirra félaga sem vilja að íþróttastarfið, rekstur íþróttamannvirkja og uppbygging þeirra sé sem allra mest í höndum félaganna sjálfra. Þekkingu innan félaganna á að nýta með þarfir hreyfingarinnar í huga.

Þrátt fyrir háan aldur er félagið okkar ungt og starfið öflugt. Kaplakriki er heimili allra aldursflokka og á hverjum degi koma á bilinu 1.000 til 1.500 manns í Kaplakrika allt frá 2ja ára í íþróttaskólann og „unglingarnir“ rúmlega níræðir, jafnaldrar félagsins, í sína daglegu göngutúra á frjálsíþróttavellinum að sumri og frjálsíþróttahöllinni að vetri. Við FH-ingar höldum veginn áfram reynum að gera betur frá degi til dags og vitum að ávallt er hægt að gera betur.Til hamingju með daginn FH-ingar nær og fjær, ÁFRAM FH.

Bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónsson hressastir í Kaplakrika. Mynd/OBÞ

Tímamótum þessum verður fagnað í Kaplakrika þann 26. október n.k. með opnu húsi frá 14:00 en þá munu deildir félagsins kynna starfsemi sína. Afmælisterta verður á boðstólnum ásamt formlegri opnun Skessunnar. Um kvöldið verður hátíðardagskrá og eru FH-ingar hvattir til að mæta en miðasala er þegar hafin.

Viðar Halldórsson formaður FH