Tvær ánægjulegar fréttir hafa birst nýverið af úttektum verðlagseftirlits ASÍ. Annars vegar um breytingar á leikskólagjöldum og hins vegar um frístundastyrki hjá 16 stærstu sveitarfélögum landsins. Þar kemur fram að 8 tíma vistun með fæði hækkar minnst milli ára hér í Hafnarfirði, um 0,64% eða 213 krónur. Hafnarfjarðarbær greiðir einnig hæstu frístundastyrkina, eða 54.000 krónur á ári fyrir hvert barn.
Aukin áhersla hefur verið á barnafjölskyldur
Sérstaklega er fjallað um þau áhrif sem systkinaafslættir geta haft á heildarútgjöld fjölskyldna til leikskóla ef fjölskyldur eru með fleiri en eitt barn. Í ljós kemur að hæstu afslættirnir eru í Hafnarfirði, þar sem 75% afsláttur er fyrir annað barn og 100% fyrir þriðja barn. Systkinaafsláttur hefur verið aukinn til mikilla muna á núverandi kjörtímabili, þar sem afsláttur fyrir annað barn fór úr 50% í 75% og úr 75% í 100% fyrir þriðja barn. Auk þess var nýjum systkinaafslætti komið á skólamáltíðir grunnskólabarna þar sem fyrsta skrefið var stigið og þriðja barn fær nú 100% aflsátt. Nýlega var frístundastyrkurinn hækkaður og frítt er í sund fyrir ungmenni yngri en 18 ára. Markmiðið var að létta undir með fjölskyldufólki og hefur það m.a. verið gert með ofangreindum aðgerðum sem skila okkur þessum jákvæðu niðurstöðum.
Öflug byggð
Skipulagsvinna hefur gengið vel á kjörtímabilinu og er hún langt komin á mörgum svæðum. Þar má nefna skipulagsvinnu í Hamranesinu þar sem gert er ráð fyrir alls um 1200 íbúðum. Verið er að vinna í reit á Hraun vestur, þar sem gert er ráð fyrir 485 íbúðum, ásamt verslunum og þjónustu. Einnig má nefna nýsamþykkt rammskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarhverfis, þar er gert ráð fyrir að glæsileg byggð muni rísa í bland við atvinnutengda starfsemi og tengda þjónustu. Skipulagsvinna gengur vel, þar sem vinna við nýbyggingarsvæði og þéttingarreiti eru í góðum farvegi. Það eru því spennandi tímar framundan hér í Hafnarfirði þegar kemur að kröftugri og skynsamlegri uppbyggingu.
Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði