Veturinn hófst með tveimur námskeiðum á vegum Æskulýðsnefndar, annað sem hófst í október og lauk í desember undir leiðsögn Ástu Köru Sveinsdóttur, reiðkennara, sem lagði áherslu á ásetu og reiðleiðir í bland við skemmtilega leiki. Hitt námskeiðið hófst í nóvember og lauk nú í janúar var undir stjórn Helgu Rósu Pálsdóttur og var þemað í því undirbúningur fyrir keppni. Bæði námskeiðin voru full og komust færri að en vildu. Að auki eru hópar ungs fólks í hinum sívinsælu knapamerkjum hjá Friðdóru og Ástu Köru sem eru í gangi og verða fram á vor. Félagshesthúsið fór aftur af stað í september með um 40 börn og verður það starfrækt fram á vor.

Æskulýðsnefnd stóð fyrir unglinga- og ungmennaferð í nóvember þar sem hestabú voru heimsótt og komust færri með en vildu. Félagið hélt í fyrsta sinn árs- og uppskeruhátíð fyrir börn og unglinga sem tókst afar vel og vonumst við til að hátíðin verði árviss viðburður. Nefndin stóð fyrir nýjung “Aðventan í Sörla” sem var viðburðarröð á hverjum sunnudegi aðventunnar. Byrjað var á Jólaföndri, síðan síðustu þrjá sunnudagana voru atvinnumenn á svæðinu sóttir “heim” og ýmsir viðburði s.s. Hestaloppan, piparkökumálun og Litlu-Jól. Nefndin fékk æskulýðsnefndir höfuðborgarsvæðisins með sér í að halda sameiginlegt Jólaball sem tókst vel til og mun vera komið til að vera. Nefndin hélt nýlega kynningarfund á stofnun æskulýðsráðs sem í eru 7 unglingar sem starfa með nefndinni.

Margt er á dagskránni 2020 þ.á.m. skipulagðar reglulegar reiðmennskuæfingar undir leiðsögn, pollanámskeið, félagsmiðstöðin, sameiginlegir reiðtúrar, fjölskylduhestaferð á Skógarhóla yfir helgi og fleira.

Miðað við skráningar og fjölda þátttakenda í viðburðum þar sem fjöldi þátttakenda er takmarkaður, er ávalt biðlisti og er ljóst að uppbygging nýrrar reiðhallar er orðin ansi aðkallandi svo hægt sé að anna eftirspurninni og hrinda í framkvæmd þeim hugmyndum sem ekki hefur gefist rými til að framkvæma.

f.h. æskulýðsnefndar Sörla

Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir