Hafnfirðingurinn og Keilismaðurinn Daníel Ísak Steinarsson er án efa einn efnilegasti kylfingur landsins og það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan hjá þessum 19 ára golfara. Daníel var ekki hár í loftinu þegar golfbakterían náði tökum á honum. Benedikt Grétarsson, íþróttafréttamaður Fjarðarpóstsins, hitti Daníel og ræddi við hann.
„Ég byrjaði að æfa árið 2011 en hef stundað golf frá fimm ára aldri. Pabbi dró mig í golf en ég hef líka verið mikið í badminton. Það hefur líka gengið mjög vel í badmintoninu og ég er fimmfaldur Íslandsmeistari í þeirri íþrótt. Ég er samt búinn að ákveða að einbeita mér að golfinu núna og badminton-spaðinn er því kominn upp á hilluna góðu.“
Daníel Ísak segir svo er margt gott við þessa íþrótt, golfið. „Útiveran er frábær og að komast bara í burtu frá öllu áreiti þegar maður er á golfvellinum. Ég byrjaði ungur í GKG í Garðabæ en er meðlimur í Keili núna og það hefur gengið mjög vel hjá mér. Ég vann tvö mót á unglingamótaröðinni, tók eitt silfur og tvö brons. Árangur minn erlendis hefur samt verið hápunkturinn á mínum ferli en ég vann m.a. mót sem haldið var í Þýskalandi þar sem ég mætti mjög sterkum mótherjum.“
Keilismaðurinn er sífellt á ferð og flugi, jafnvel um hávetur. „Ég er að fara til Portúgal að keppa á tveimur mótum . Ég þarf auðvitað að sinna lærdómi samhliða mótunum en ég er að útskrifast í vor úr FG eftir þriggja ára nám. Þetta er auðvitað svolítið strembið en hefst allt með mikilli vinnu.“

Badminton-meistarinn Daníel Ísak. Mynd aðsend.
Kylfingurinn efnilegi stendur á tímamótum en Daníel Ísak hyggur á háskólanám í Bandaríkjunum næsta haust. „Ég ákvað mjög ungur að fara þessa leið, að komast til Bandaríkjanna í háskólanám og spila þar golf samhliða náminu. Það var alltaf draumurinn minn, ekki síst þar sem foreldrar mínir stunduðu sitt háskólanám erlendis og líkaði vel. Ég byrjaði bara að senda fyrirspurnir á háskóla fyrir ca.tveimur árum og þær fyrirspurnir skiptu hundruðum. Svörin voru kannski ekki alveg svo mörg en einhver svör komu þó í hús og þar á meðal var Western Carolina-háskólinn sem er staðsettur í Norður-Karólínu.“
Daníel Ísk leist mjög vel á skólann og þann pakka sem honum var boðinn þar. „Ég fæ skólastyrk fyrir að spila með liði skólans og ég passaði mig á að velja skóla þar sem ég fæ að spila mikið í stað þess að fara í sterkari háskóla þar sem ég væri að berjast fyrir sæti í liðinu. Þannig þróast ég betur sem kylfingur.“
Daníel er meðvitaður um sína styrkleika en einnig hvernig hann getur bætt sig á golfvellinum. „Það má alltaf bæta andlega þáttinn sem kylfingur. Ég er kannski aðeins of harður við sjálfan mig þegar gengur illa og það hefur áhrif á sjálfstraustið. Styrkur minn í golfi liggur helst í höggum með Driver og löngu járnunum og svo eru púttin nokkuð góð líka. Ég er frekar högglangur ef miðað er við íslenska kylfinga.“
Það er stórt skref fyrir 19 ára manneskju að yfirgefa foreldrahús og fara á vit ævintýranna í nýju landi. Daníel er þó hvergi smeykur. „Það er vissulega smá kvíði en ég er samt aðallega spenntur. Það hjálpar mikið að það er nú þegar íslenskur strákur í liðinu og ég þekki hann ágætlega. Svo gæti þriðji Íslendingurinn bæst við en það er ekki alveg 100%. Mamma og pabbi verða ekkert þarna mér til halds og trausts, ég fer bara einn. Þetta er mín lífsreynsla og ég ætla að njóta hennar í botn,“ sagði Daníel brosandi að lokum.
Nafn: Daníel Ísak Steinarsson
Aldur: 18 ára, fæddur 4.júli árið 2000
Forgjöf: -1,4
Fyrirmyndir: Axel Bóasson úr Keili og goðsögnin Tiger Woods
Búnaður: Titleist og Scotty Cameron
Uppáhalds kylfa: Sjö-járnið hefur reynst mér vel.
Uppáhalds völlur: Keilir, minn heimavöllur.
Erfiðasti völlur: GKG hefur oft farið illa með mig.