Í vikunni var settur upp ærslabelgur á Víðistaðatúni og var hann opnaður formlega í dag. Það þótti mjög viðeigandi að fá þá nemendur, tvær stúlkur í Hvaleyrarskóla og samnemendur þeirra sem sendu inn formlega beiðni um uppsetningu á belg til bæjarstjóra, til að taka fyrsta formlega hoppið á belgnum. Ærslabelgir sem þessir hafa verið settir upp víða um land og notið mikilla vinsælda. Mikið líf og fjör hefur verið á Víðistaðatúni síðan belgurinn var settur upp.

Vala Björk og Hafdís Ólöf opna hér ærslabelginn formlega með Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra. Til aðstoðar eru Kristín Thoroddsen formaður fræðsluráðs og Fanney D. Halldórsdóttir fræðslustjóri Hafnarfjarðarbæjar.

Í árslok 2017 settu þær Vala Björk og Hafdís Ólöf, þá nemendur í 7. bekk í Hvaleyrarskóla sig í samband við bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar og lögðu til þá hugmynd að ærslabelgur yrði settur upp á Víðistaðatúni.  Stúlkurnar færðu góð rök fyrir því að Heilsubærinn Hafnarfjörður myndi eignast slíkan belg enda um að ræða góða afþreyingu fyrir börn og ungling og til þess fallinn að ýta undir ánægjulegar samverustundir með fjölskyldu og vinum. Hugmyndin þótti mjög áhugaverð en þar sem um nýjung á leiktækjamarkaði var að ræða þótti ástæða til að rýna hugmyndina vel og þar með öll öryggisatriði. Fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar samþykkti svo á fundi sínum 9. maí sl. að fjárfesta í ærslabelg og tók undir bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 8. maí um að fyrsti ærslabelgurinn sem fjárfest yrði í yrði staðsettur á Víðistaðatúni. Þykir leiktækið falla vel að þeim hugmyndum sem uppi hafa verið með uppbyggingu á Víðistaðatúni en áhugi er fyrir því að skoða uppsetningu á öðrum ærslabelg í syðri hluta bæjarins.

Nemendur í Hvaleyrarskóla hoppa hér með bæjarstjóra á nýjum ærslabelg.

Ærslabelgur er loftknúin niðurgrafin hoppudýna sem er jafnhá landslaginu og er hugsaður fyrir fólk á öllum aldri sem hefur áhuga á að hoppa og leika sér. Allir „hopparar“ eru vinsamlegast beðnir um að skemmta sér kostulega en fara á sama tíma varlega og eftir þeim umgengnisreglum sem settar hafa verið upp við belginn. Belgurinn er tímastilltur og verður loft í honum frá kl. 9 – 22 alla daga í sumar.

Myndir: Hafnarfjarðarbær.