Skokkhópur Hauka var stofnaður árið 2007 og fagnar því 12 ára afmæli á þessu ári. Fjarðarpósturinn kíkti á æfingu hjá þessum öfluga hópi snemma á laugardagsmorgni og nokkrar sprækar hlaupakonur gáfu sér tíma til að rabba við blaðamann.
Viðmælendur mínir gengu í hópinn 2008 og þá voru um tíu manns sem mættu og hlupu saman. Það var þó 100% bæting frá upphafsárinu þegar Sigríður Kristjánsdóttir stofnaði hópinn. Í dag hefur iðkendum heldur betur fjölgað en um 150 manns eru skráðir í skokkhópinn. Eðlilega er misgóð mæting á æfingar en hópurinn hittist samt alltaf þrisvar í viku. Allir sem sitja með blaðamanni að Ásvöllum eru líka sammála um að það eigi að koma skýrt fram að hópurinn var stofnaður á undan hlaupahópi FH!
Mun fleiri konur eru í hópnum og stelpurnar giska á að um 70% meðlima séu konur. Aðspurðar hvers vegna konurnar séu fleiri en karlarnir, stendur ekki á svari. „Karlarnir eru bara latari,“ segja þær léttar en bæta svo við að karlmennirnir séu reyndar margir í öðruvísi íþróttum. „Það er samt alveg erfitt að rífa sig í gang í svona færð og kulda til að fara út að hlaupa. Það skal alveg viðurkennast.“

f.v. Hreiðar Júlíusson, Elín Ragna Sigurðardóttir, María Guðmundsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Olga Sigurðardóttir.
Þegar hér er komið við sögu, mætir Hreiðar Júlíusson, þjálfari hópsins til leiks. Hreiðar segir mætinguna yfirleitt góða, nema kannski þegar spáð er óveðri. „Það er svona þegar lögreglan mælist til þess að fólk sé ekki mikið á ferli, þá fer mætingin aðeins niður. Fyrir tveimur árum var svo vont veður að strætóskýli fuku en þá voru samt tveir á æfingu ,“ bætir Hreiðar við kíminn.
Hreiðar segir ekkert skilyrði að fólk sé í frábæru hlaupastandi til að ganga í hópinn. „Það eru alls konar styrkleikastig á okkar hlaupurum. Það er yfirleitt er alltaf einhver í hópnum sem er á svipuðum hraða og getur hlaupið með viðkomandi. Þeir sem eru algjörir byrjendur, ættu að skrá sig á byrjendanámskeiðið hjá okkur í apríl og taka svo næstu skref út frá því.“
FH er einnig með öflugan hlaupahóp og viðmælendur mínir segja samskiptin jákvæð á milli hópanna.
„Við hlaupum oft saman og rekumst á þau um allan bæ. Það er mjög gott samstarf á mili þessara hópa og enginn rígur milli félaganna. Það er auðvitað aðeins verið að kynda í fólki og FH-ingar halda því t.d. fram að við séum skokkarar í Haukum en hlaupararnir séu allir í FH. Þetta er allt í góðu og rosa fínn andi milli hópanna,“ segja hlaupagarparnir, setja naglana undir skóna og halda af stað út í vetrarríkið.
Hægt er að finna nánari upplýsingar á Facebook-síðu hópsins – Skokkhópur Hauka.
Myndir: Olga Björt Þórðardóttir