Rafn Em­ils­son og Hilm­ar Ingi­mund­ar­son, fjölskyldufeður og íbúar í Hafnarfirði, náðu þeim árangri fyrstir Íslendinga að klífa upp á topp kletta­veggs­ins El Capitan í í Yosemite þjóðgarðinum í Kali­forn­íu. Vegg­ur­inn er tæp­lega 1.000 metra hár og þver­hnípt­ur. Klifrið tók fimm daga en í heildina var ferðin tvær vikur. Mikilvægur hluti af undirbúningnum fór fram á vegg klifurdeildarinnar hjá Fimleikafélaginu Björk og eru þeir félagar þeim afar þakklátir. Við hittum Rafn og Hilmar í íþróttahúsi Bjarkar.

Rafn, til vinstri og Hilmar, til hægri.

Rafn er skólastjóri Arnarskóla og Hilmar rekur eigið startup fjártæknifyrirtæki – www.BankKernel.com sem er með framendahugbunað fyrir fjartæknifyrirtæki og þjónustu í kringum það, auk þess að vera formaður Klif­ur­fé­lags Reykja­vík­ur sem rek­ur Klif­ur­húsið. Þeir koma báðir úr björgunarsveitarstarfi, alhliða fjallamennsku og ísklifri. Lagt var í hann í byrjun nóvember um leið og bólusettir Evrópubúar máttu ferðast til Bandaríkjanna. „Við vorum búnir að æfa fyrir þetta í tvö ár. Um er að ræða mjög sérhæfðar æfingar sem eru fyrir svona háa veggi, sem eru annars konar en þar sem við höfum æft undanfarin 25-30 ár. Við gátum stundað þessar sérhæfðu styrktar-, línu- og öryggisæfingar á klifursvæðinu hjá Björk þegar aðrar æfingar voru ekki í gangi þar og vorum því að sniglast inn eldsnemma á sunnudagsmorgnum og á milli kl. 20 og 22 á kvöldin, segir Rafn.

Við rætur veggjarins El Capitan.
Rafn virðir fyrir sér komandi áskoranir.

Ferðalagið tók alls tvær vikur þar sem ekið var þrjá tíma frá San Fransisco og inn í þjóðgarðinn. Þeir segjast hafa fengið algjört draumaveður. „Að vera í þjóðgarði er þægilegt upp á allt aðgengi að gera, ólíkt t.d. óbyggðum í Suður-Ameríku. Hins vegar getur verið traffík af klifrurum, en það var ekki núna,“ segir Hilmar. Rafn bætir við að leiðin sé einnig merkileg út frá árangri kvenna því hin bandaríska Lynn Hill varð fyrst allra til að klífa vegginn árið 1993. „Án þess að styðjast við að setjast í klifurbelti eða toga í nælonborða. Bara klifra með fingrum og tám; eitthvað sem var búið að reyna lengi. Það var ekki leikið eftir í mjög langan tíma.“

Farið yfir vistir áður en lagt var í hann.
80 kíló af lífsnauðsynlegum búnaði voru bara í þessum poka sem þeir þurftu að hafa í eftirdragi.

Félagarnir segja aðspurðir að úthald, þrautsegja og hugarfar skipti miklu máli í svona ferð. Svokölluð fjallamennskuþreyta geti gert strik í reikninginn. „Þess vegna hafði ég samband við Hilmar því hann hafði langa reynslu af erfiðri fjallamennsku. Að lenda í alls kyns vandræðum og leysa úr þeim. Fólk með slíka reynslu er með svo góðan grunn í svona veggjaklifur, umfram tæknina. Stór hluti af fjallamennsku yfirleitt er að kunna að snúa við ef ástæður eru fyrir því og ekki svekkja sig á því. Því er oft erfiðara að finna rökin til að halda áfram og þess vegna er tilfinningin einstaklega sæt þegar stórum áföngum eins og þessum er náð,“ segir Rafn.

Það er ekki bara veggurinn sem er hár, heldur eru trén í skóginum fyrir neðan gríðarlega há.

Hilmar tekur undir þetta allt og segir að í þessari ferði hafi verið erfiðast að halda út og halda áfram í fimm daga. „Við sváfum hlið við hlið í hengirúmi því fáar syllur eru á leiðinni, u.þ.b. ein á dag þar sem hægt er að hvílast á. Annars erum við bara í lausu lofti. Það er heilmikið vesen að taka hengirúmið upp úr pokanum og setja það svo á sama stað aftur. Við erum orðnir svo þreyttir þegar við loksins komumst í hengirúmið að við steinrotumst um leið.“

Nokkrar myndir frá klifrinu sjálfu.
Gríðarleg náttúrufegurð og útsýni yfir þjóðgarðinn.
Vanir menn sem treysta öllum festingum og reipum.
Hilmar sáttur.
Aaaahhh…smá sylla.
Syllur voru u.þ.b. ein á dag og þá var gripið í kjörið tækifæri til að afklæðast fótabúnaði og hvílast smá.

Klifurleiðin heitir The Nose og er ein fræg­asta klif­ur­leið Norður-Am­er­íku og liggur upp mest áber­andi og stærsta klett­inn, El Capitan. Hilmar tekur fram að færri klifri þessa leið en t.d. fari á Everest á hverju ári, en um 50-70% sem snúi við á leiðinni upp. Þótt klettaklif­ur hafi verið stundað á Íslandi í áratugi er um að ræða aðra tækni, s.s. að setja upp trygg­ing­ar, hífa upp vist­irnar, næra sig og hvílast.

Að sjálfsögðu var líka dimmt og ekki á hvers manns færi að athafna sig í mörghundruð metra hæð, í lausu lofti.
Tvíbreiða hengirúmið sem þeir áttu ekki í vandræðum með að sofna í og vera öruggir.

„Við tókum með okkur 40 lítra af vatni, 80 kg af vistum og búnaði fyrir 5 daga og svo héngu samtals 20 kg utan á okkur,“ segir hann og Rafn bætir við að þeir hafi þurft að miða við að ferðin yrði ekki lengri en fimm dagar. „Þetta er í raun eins og tímaglas. Um leið og þú ert lagður af stað, þá gefst niðurtalningin á birgðum. Líka andlegur faktor inni í því því planið verður að gang upp. Við vorum mjög langt komnir með vatnsbirgðirnar þegar upp var komið og skömmtuðum okkur á leiðinni niður.“

Hilmar kominn á toppinn, dauðþreyttur en ánægður.
Gott að geta afklæðst loksins. Fingur og tær bólgnir og þrútnir.
Rafn hvílir sig aðeins þegar á toppinn var komið.

Félagarnir vilja koma því sérstaklega á leiðis að ekki sé sjálfsagt að hleypa tveimur fjölskyldumönnum svona í tvær vikur að leika sér. „Við eigum samtals fimm börn og frábærar konur. Maður fattar ekkert almennilega fyrr en eftir á að þetta er ekki sjálfsagt. Það var stóísk ró milli okkar Hilmars allan tímann og við náðum vel saman og það er ekkert sjálfsagt heldur,“ segir Rafn og Hilmar tekur undir það og bætið við: „Við urðum mjög nánir, enda oft ofan í hvor öðrum. Það eru t.a.m. engar klósettferðir svo að við urðum bara að virða slíkt þegar þurfti,“ segir hann og þeir glotta báðir. Talandi um fjölskyldumál taka þeir að lokum fram að flest barna þeirra æfa ýmist fimleika eða klifur í Björk og þeir segja að haldið sé vel utan um allt prógramm og þar séu einstaklega góðir þjálfarar. Það eru ekki amaleg ummæli frá svona sterkum fyrirmyndum.

Myndir eru frá Hilmari. Forsíðumynd tók Olga Björt.

Fjallað var um ferðina í Íslandi í dag fyrr í vetur. Hér er hlekkur á það.

Tvær þekktar kvikmyndir voru gerðar á umræddu svæði árið 2018. Hér eru stiklur úr þeim: