Heildarumfang aðgerða ríkisstjórnarinnar í aðgerðarpakka tvö gæti numið 60 milljörðum króna. Lokunarstyrkir verða greiddir til fyrirtækja sem þurftu að loka vegna lögboðs stjórnvalda í tengslum við baráttuna við útbreiðslu COVID-19, einkareknir fjölmiðlar fá 350 milljónir króna í sértæka styrki og framlínustarfsmenn munu skipta með sér bónusgreiðslu upp á einn milljarð króna fyrir þeirra framlag í baráttunni gegn covid19.

Þetta eru meðal aðgerða sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynntu í Safnahúsinu í dag. Aðgerðirnar flokkast í meginþátttum í eftirfarandi, skv. vefsíðu Stjórnarráðsins, en þar eru þær nefndar Varnir, vernd og viðspyrna.

  • Lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna
  • Stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja
  • Fyrirtækjum heimilað að jafna tekjuskatt 2019 með tapi 2020
  • Virkni á vinnumarkaði – úrræði til að efla fólk í atvinnuleit
  • Geðheilbrigði í forgangi, átak gegn ofbeldi og fjarheilbrigðisþjónusta efld
  • Margþættur stuðningur við börn – sérstakur frístundastyrkur til tekjulágra
  • Álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks vegna Covid-19
  • Sumarúrræði fyrir námsmenn – störf, nám og frumkvöðlaverkefni
  • Efling matvælaframleiðslu með nýsköpun og markaðssetningu
  • Frekari sókn til nýsköpunar – fjárfestingar auknar, hærra hlutfall endurgreiðslu og þök hækkuð vegna rannsókna og þróunar

Lán með 100% ríkisábyrgð

Meðal þeirra úrræða sem rík­is­stjórn­in kynnt­i eru lán með 100% rík­is­ábyrgð fyr­ir minni fyr­ir­tæki. Bjarni sagði að lánin myndu lík­lega gagn­ast 8-10 þúsund fyr­ir­tækj­um. Þyrftu þau að upp­fylla skil­yrði um 40% tekju­fall og ákveðið hlut­fall launa­kostnaðar af heild­ar­kostnaði fyr­ir­tæk­is­ins. Há­mark slíkra verði 6 millj­ón­ir, ríkið myndi ábyrgj­ast þau að fullu og til­gang­ur með þeim verði til að koma til móts við fyr­ir­tæki sem gætu orðið fyr­ir áhrif­um af því að fá ekki greidda reikn­inga frá öðrum fyr­ir­tækj­um.

3000 tímabundin störf fyrir námsmenn og aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu

2,2 milljörðum króna verður varið til að skapa 3000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 m.kr. til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 m.kr. veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum.

Einnig verður ráðist í aðgerðir til að hlúa að viðkvæmum hópum, vinna gegn ofbeldi og félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja, styðja við virkni atvinnuleitenda og tryggja tækifæri barna úr tekjulágum fjölskyldum til að taka þátt í frístundastarfi. Hugað verður sérstaklega að því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónusta verður efld. Alls verður um 8,5 ma.kr. varið til félagslegra aðgerða í þessum áfanga.

Bætt við mannskap hjá Vinnumálastofnun vegna álags

Vinnu­mál­stofn­un fær allt að 100 millj­óna króna viðbótar­fjármagn til rekst­urs stofn­un­ar­inn­ar vegna auk­inna verk­efna í tengsl­um við COVID-19. Þá verður um ein­um millj­arði króna varið í sér­stak­ar álags­greiðslur til starfs­fólks sjúkra­húsa og heil­brigðis­stofn­ana sem starfar und­ir miklu álagi vegna Covid-19 heims­far­ald­urs­ins.

Tímabundinn réttur til endugreiðslu virðisaukaskatts vegna flýtiframkvæmda

Til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir er lagt til að þeim verði veittur tímabundinn réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað auk þess sem Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fær heimild til að veita styrki til sveitarfélaga. Þá stendur yfir kortlagning á viðkvæmum svæðum á landsvísu og stafræn þjónusta sveitarfélaga verður efld. 

Katrín Jakobsdóttir sagði á fundinum að þetta væri aðeins annar aðgerðarpakki af fleirum sem verða kynntir á næstunni.