Foreldraráð Hafnarfjarðar hefur látið gera myndband um foreldrasamstarf og gildi þess í grunnskólanum. Líklega er þetta fyrsta foreldramyndbandið sem gert er hérlendis og hefur að tilgangi að vekja athygli á traustu samtarfi heimilis og skóla og mikilvægi þess fyrir velferð barnanna okkar. Þar er dýrmætt að allir taki þátt og séu með.
Rannsóknir sýna, að ef foreldrar þekkja til skólastarfsins, starfsfólks og annara foreldra í skólanum, þá hefur það áhrif á árangur barnsins í skólanum og hvernig því gengur félagslega. Foreldrar í bekkjum barna sinna, sem mynda með sér tengsl og góða samvinnu, eru mun betur í stakk búinn að leysa úr vandamálum og finna farsælar lausnir til að efla bekkjarandann. Góð tengsl foreldra hafa einnig áhrif á líðan barna, eykur skilning og samheldni þeirra meðal. Þessi samvinna er ekki aðeins byggð upp í gegnum samfélagsmiðla eins og Facebook heldur einkum með þátttöku og virku samstarfi foreldra.
Víða er unnið gott starf meðal foreldra í bekkjum og vegum foreldrafélaga hér í Hafnarfirði og þar starfa margir í sjálfboðnu starfi af áhuga og hugsjón að því að byggja upp góð tengsl. Víða á félagslegt starf undir högg að sækja í tímaleysi hversdagsins. Foreldrasamstarf er ekki eins og hvert annað félagsstarf, heldur raunhæft tækifæri til að hlúa að börnunum okkar, að þeim líði vel og fái góða menntun. Þar skiptir samtakamáttur foreldra og skólans miklu máli. Hér gildir, að aðir beri ekki ábyrgðina fyrir mig í þessu mikilvæga starfi. Langtum fremur: Hvað get ég gert?
Foreldrasamstarf með barnið í forgrunni í traustu samstarfi við skólann og starfsfólk hans miðar að því að gera góðan skóla enn betri. Þar geta foreldrar lagt mikið að mörkum. Tökum virkan þátt og eflum gott starf.
Myndbandið verður frumsýnt á málþinginu “Hve glöð er vor æska?” þriðjudaginn 19. nóvember, kl. 20:00 í sal Flensborgarskóla, sem Foreldraráð Hafnarfjarðar stendur fyrir um líðan barna og unglinga og forvarnir.
Meðal fyrirlesara eru:
Geir Bjarnason, forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar
Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræðum
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu
Nánari upplýsingar: https://www.facebook.com/events/396270341252438/
Verum öll hjartanlega velkomin.
Stefán Már Gunnlaugsson
Formaður Foreldraráðs Hafnarfjarðar