Í gær var mér bent á aðsenda grein sem fulltrúi Bæjarlistans í skipulags- og byggingaráði Hafnarfjarðar, Sigurður Pétur Sigmundsson, birti á vefsíðunni Hafnfirdingur.is. 

Grein þessi sem virðist í fyrstu eiga að  lýsa viðhorfi og skoðun greinarhöfundar á ýmsu sem tengist skipulagsmálum í bænum, aðallega Suðurhöfninni og einnig svæði sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Flatahrauni og Fjarðarhrauni, oft nefnt “uppi á hraunum”. Skoðanir hans á framvindu skipulagsmála á þessum svæðum eru hans. Meirihlutinn hefur okkur Hafnfirðingum til heilla verið á öndverðri skoðun og unnið ötullega með framtíðarhagsmuni Hafnarfjarðar í huga.

Ofangreint er þó ekki tilefni andsvars þessa, tilefnið eru í raun tvær setningar sem koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum í lok þessa dæmalausa pistils. Í fyrri setningunni hoppar pistlahöfundur upp í Kaplakrika og sakar Fimleikafélag Hafnarfjarðar beinlínis um þjófnað, þ.e. að selja eignir sem ekki hafi verið í eigu félagsins. Ásakanir þessar eru grafalvarlegar og gjörsamlega út í hött. 

Fimleikafélag Hafnarfjarðar byggði knatthúsið Skessuna á s.l. ári og var byggingin fjármögnuð með sölu þriggja íþróttahúsa sem voru í eigu Fimleikafélagsins. Fimleikafélagið byggði og hefur alltaf verið eigandi að tveimur knatthúsm (Risinn og Dvegurinn), byggt, fjármagnað og rekið knatthúsin frá upphafi. Þriðja íþróttahúsið, handboltahúsið, var frá árinu 1990 þegar það var tekið í notkun í sameiginlegri eigu Hafnarfjarðarbæjar (80%) og Fimleikafélagsins (20%). Húsið var byggt skv. samningi millum aðila sem gerður var 1989 en í samningi þessum kom skýrt fram að 1. janúar 2005 yrði húsið 100% í eigu Fimleikafélagsins. Ákvæðið um eignarhald Fimleikafélagsins má kalla og var í raun gjöf en gjafagjörningur þessi var núverandi meirihluta algjörlega óviðkomandi en alveg ljóst að handboltahúsið var 100% Í eigu Fimleikafélagsins við sölu þess. 

Seinni setninguna er erfitt að skilja en þar virðist pistlahöfundur draga “athafnamanninn” sem greinilega er Jón Rúnar Halldórsson, framkvæmdastjóri Fornubúða og einn dugmesti forystumaður Fimleikafélagsins í ártugi inn í þennan auma pistil sinn sem einhvern ódáðamann bæði í skipulagsmálunum og Kaplakrikaþjófnaðinum. Jón Rúnar hefur í áratugi unnið óeigingjarnt og mikilvægt sjálboðaliðsstarf í Fimleikafélaginu ásamt því að hafa komið að uppbyggingu fyrirtækja, stofnana og mannvirkja hér í Hafnarfirði sem hefur og mun verða heilladrjúg fyrir Hafnfarfjörð. Svo því sé haldið til haga þá er Jón Rúnar bróðir undirritaðs.

Nú þegar pistlahöfundur hefur snúið til baka í Kaplakrikann, glæsilegasta og hagkvæmasta íþróttasvæði landsins, ætti hann að kynna sér málin og allavega gera tilraun til að hafa sannleikann að leiðarljósi.

Viðar Halldórsson

formaður Fimleikafélags Hafnarfjarðar