Minningarstund verður haldin í Hafnarfjarðarkirkju 9. febrúar kl. 11 um þá sem fórust með togaranum Field Marshal Robertson í Halaveðrinu svokallaða fyrir 95 árum. Sama dag verður opnuð sýning í safnaðarheimilinu um þennan atburð. Togarinn var gerður út frá Hafnarfirði og 29 íslenskir sjómenn og 6 breskir fórust. Minningartafla um slysið er í kór Hafnarfjarðarkirkju. Sr. Þorvaldur Karl Helgason og loftskeytamaðurinn Egill Þórðarson hafa undanfarnar vikur og mánuði unnið mikið rannsóknarstarf um þá sem fórust og Halaveðrið og náð í heimildir sem aldrei hafa sést fyrr. Við hittum þá félaga. 

Taflan sem er á vegg í Hafnarfjarðarkirkju og gefin var til minningar um þá sem fórust.

„Ég kynntist Agli á síðasta ári þegar ég þjónaði í kirkjunni í fjóra mánuði. Hann var tíður kirkjugestur með mikinn áhuga á öllu mögulegu,“ segir Þorvaldur, en rannsókn Þorvaldar fólst í að leita í heimildum, kirkjubókum, Íslendingabók, manntali og ýmsum frumgögnum. „Ég fann upplýsingar um hina látnu og aðstandendur. M.a. voru þrír bræður sem fórust þessa miklu áfallahelgi, 7. – 8. febrúar 1925. Tveir togarar fórust; Field Marshal Robertson, Leifur heppni og mótorbáturinn Sólveig.“ Egill fór í að gera grein fyrir atburðunum og finna gögn um veðrið og garfa í leiða- og siglingabókum. Hann fór m.a. til Kaupmannahafnar í þeim erindagjörðum. „Mikið atvinnuleysi var á þessum tíma og það var mikil iðnbylting fyrir Íslendinga að fá togaraútgerð í Hafnarfirði og Reykjavík,“ segir Egill.  

Landssöfnun og bankar opnir lengur

12. febrúar fóru Fylla og Hellyerstogarinn Ceresio til leitar vestur fyrir land. Meðan á þeirri leit stóð, var haldinn stór fundur í Reykjavík þar sem skipulögð var, undir stjórn Magnúsar Magnússonar fyrrum stýrimannaskólakennara, stórleit sem 18 togarar tóku þátt í.

Þegar sú leit bar ekki árangur fóru Fylla og fjórir togarar í þriðju leitina sem stóð til 5. mars. „Skipin fundust aldrei og ákveðið var að 10. mars að halda minningarathöfn samtímis í Dómkirkjunni og Hafnarfjarðarkirkju. Athöfnin var auglýst í 4 síðna sérblaði Alþýðublaðsins 10. mars um slysið og einnig um landssöfnun í bönkum sama dag,“ segir Þorvaldur og bætir við að síðan hafi verið nefnd til að deila skipulega út fjármununum, miðað við ýmsa þætti eins og fjárhagsstöðu, tryggingmál og heilsufar aðstandenda. 

Vildu sýna mönnunum virðingu 

Engin mynd eða teikning er til af Field Marshal Robertson, en Egill fékk félaga sinn, Kristin Halldórsson, til að teikna togarann upp úr teikningu af tundurduflaslæðaranum sem hann var upphaflega smíðaður eftir. „Kristinn fann nákvæma sjólínu miðað við hleðslu og þyngdarpunkt þannig að hægt var að bera saman við nútíma skip af sömu lengd. Mikill munur kom í ljós á sjóhæfni skipa þá og nú. Skipin urðu fyrir ógurlegum brotsjóum sem köstuðu þeim á hliðina svo möstur lögðust í sjó, fiskur, salt og kol köstuðust út í síðu. Um 500 menn á 16 togurum börðust sleitulaust fyrir lífi sínu meðan á veðrinu stóð,“ segir Egill, en hann hefur látið útbúa fjögur plaköt um atburðina (1m x 1,20m) sem fest verða upp á vegg í safnaðarheimilinu. „Við viljum sýna öllum þessum mönnum, skipverjum og leitarmönnum, virðingu okkar og þess vegna fengum við kraft við að láta þetta verða að veruleika,“ segir Egill að endingu. 

Skjáskot af 4 síðna Alþýðublaði 10. mars 1925, af Tímarit.is:

Aðalmynd af Agli, sr. Þorvaldi Karli og sr. Jóni Helga Þórarinssyni sóknarpresti í Hafnarfjarðarkirkju/OBÞ