Fimmtudaginn 23. maí brautskráðust 86 stúdentar frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Nemendur brautskráðust af félagsvísinda- raunvísinda-, viðskipta- og hagfræðibraut, starfsbraut og opinni námsbraut. Alls luku 36 nemendur íþróttaafrekssviði sem hluta af stúdentsprófinu. Dúx skólans er Steinunn Bára Birgisdóttir, með meðaleinkunnina 9,8. Steinunn útskrifast af raunvísindabraut með íþróttaafrekssviði.

Steinunn Bára Birgisdóttir, dúx skólans, ásamt Magnúsi Þorkelssyni skólameistara. Ljósmyndari Hildigunnur Guðlaugsdóttir.
Tveir nemendur voru fast á hæla Steinunnar, með 9,7, þau Magnús Fannar Magnússon og Birgitta Þóra Birgisdóttir. Svo skemmtilega vill til að þau þrjú fengu einmitt viðurkenningu fyrir tveimur árum sem þeir nýnemar sem náðu bestum árangri á fyrsta námsári. Þau þrjú, ásamt fjölda annarra nýstúdenta, hlutu ýmsar viðurkenningar og verðlaun, en fjöldi fyrirtækja, sendiráða og skóla veittu þeim verðlaun, m.a. Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Rio Tinto, Góa, Íslenska gámafélagið, Íslenska stærðfræðifélagið og fleiri. Skólinn þakkar þeim velvildina.

Alls luku 86 nemendur námi við Flensborgarskólann. Ljósmyndari Heiða Dís Bjarnadóttir.
Í ávörpum sínum stikluðu skólameistari og aðstoðarskólameistari á stóru í viðburðum og starfi á nýliðnu skólaári. Fjölmargt í starfi skólans hefur það að markmiði að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Skólameistari nefndi meðal annars verkefni sem nemendur á 2. ári, í svokölluðum HÁMARKs-áföngum unnu í tengslum við samfélagsþjónustu, auk þess að nefna góðgerðarviku nemendafélagsins, Flensborgarhlaupið, sem er árlegt áheitahlaup og margt fleira.
Við útskriftina var sýnt myndband þar sem nýstúdentar lýstu brýnustu verkefnum framtíðarinnar og hvernig þau gætu lagt sitt af mörkunum við að gera Ísland að betra samfélagi. Hlýnun jarðar og sú loftslagsvá sem mannkynið stendur nú frammi fyrir voru nýstúdentum einkar hugleikin en einnig var fordómaleysi, velferð einstaklingsins og samkennd þeim ofarlega í huga.
https://www.youtube.com/watch?v=r8gk5Ig2Coc
Christopher Ólafsson ávarpaði samkomuna fyrir hönd nýstúdenta. Christoper hvatti samstúdenta sína til að láta drauma sína rætast og tilkynnti m.a. að nemendurnir myndu færa Ljósinu styrk sem þau söfnuðu við undirbúning útskriftarinnar.

Torfi Kristinsson, Lilja Héðinsdóttir og Jón Barðason létu af störfum við skólann. Ljósmyndari Hildigunnur Guðlaugsdóttir.
Þrír kennarar ljúka störfum sínum við skólann fyrir aldurs sakir og voru kvaddir við athöfnina. Lilja Héðinsdóttir, enskukennari hefur starfað við skólann frá 1979, í 40 ár. Auk kennslu hefur hún tekið að sér ýmis trúnaðarstörf fyrir skólann og setið í nefndum og ráðum. Torfi Kristinsson hefur starfað við skólann frá árinu 1980 og var lengi áfangastjóri, auk þess að kenna forritun og aðrar tölvugreinar. Jón Barðason hefur kennt sögu við skólann frá 1994.
Kór Flensborgarskólans söng við athöfnina, að venju, undir stjórn Helga Rafns Ingvarssonar.