Alls voru 79 nemendur brautskráðir frá Flensborg vorið 2020 við frekar óvanalegar aðstæður. Vegna Covid-19 aðstæðna voru haldnar tvær athafnir og í hvorri voru í salnum eingöngu útskriftarefnin og lágmarksfjöldi starfsmanna. Athöfnin fór fram í sérlega fallegu veðri og tóku fjölskyldur nemendanna á móti þeim framan við skólann.

Annar hópurinn. Mynd/aðsend
Hinn hópurinn. Mynd/aðsend

Leikið var myndband með söng kórs skólans, kveðjum frá starfsmönnum og fleira. Athöfninni var streymt og má finna upptökur af henni á Facebook síðu skólans.
Nemendurnir 79 skiptust þannig að 48 konur luku prófi og 31 karl. 14 nemendur luku námi af félagsvísindabraut, 34 af opinni braut, 16 af raunvísindabraut, einn af starfsbraut og 12 af viðskipta- og hagfræðibraut. Af þessum hópi luku 34 námi af íþróttaafrekssviði.
Margvíslegar viðurkenningar voru veittar, en auk þeirra sem skólinn veitti þá gáfu einnig verðlaun Danska sendiráðið, Góa- Kentucky fried, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reyjavík, Hið íslenska stærðfræðifélag, Rio tinto í Straumsvík, Rotary hreyfingin á Íslandi og Terra.

Dúx skólans þetta misserið er Arna Rún Skúladóttir. Mynd/Flensborgarskóli

Ávörp útskriftarnema fluttu Agnes Björk Rúnarsdóttir í fyrri athöfninni og Aldís Ósk Davíðsdóttir í þeirri seinni.
Flensborgarskólinn færir nemendunum og aðstandendum þeirra hamingjuóskir og þakkar fyrir þá þjóðhátíðarlegu stemmingu sem skapaðist á stéttinni.

Ávarp og lokaorð skólameistara:

Ávarp
Kæru útskriftarnemar. Það er margt að hugsa um nú um stundir. Þetta er óvanaleg útskriftarathöfn enda sérstakar aðstæður.
Ég var að íhuga á dögunum og hugsaði m.a. um hvert yrði nú orð ársins. Mér fannst líklegt að það yrði orðið fordæmalaust.
Af hverju er ég að minnast á þetta?

Jú kannski vegna þess að á þessum fordæmalausu tímum þá fer maður að velta fyrir sér því hvort skólastarfið hafi staðið betur eða verr vegna þeirra aðstæðna sem upp komu. Við höfum skyldur gagnvart ykkur. Við áttum að búa ykkur undir frekara nám, þátttöku í lýðræðissamfélagi, að stuðla að þroska, bjóða nám við hæfi, búa undir þátttöku í atvinnulífi og er þá fjarri því að allt sé nefnt.
Þessi hugsun er ekki ný.

Prófasthjónin að Görðum á Álftanesi, þau Þóra Jónsdóttir og Þórarinn Böðvarsson, sem stofnuðu Flensborgarskólann fyrir liðlega 140 árum, vildu að nemendur gætu aflað sér þeirrar þekkingar sem teldist nauðsynleg hverjum alþýðumanni. Þau bættu við síðar að það væri ætlunarverk skólans að „veita almenna menntun, glæða sálargáfurnar, auka þekkinguna og styrkja siðferðislega hæfileika nemenda skólans.“ Og þetta stendur á skilti frammi í anddyri og er nefnt eins oft og hægt er.
Það er von mín að þetta sé það sem við buðum ykkur upp á, – til viðbótar við námsgreinarnar, dönsku, umhverfisfræði, kynjafræði svo fátt eitt sé nefnt.

Þessi vetur sem við höfum deilt saman í vetur er sannarlega fordæmalaus. Ég eiginlega held að þessi staða hafi ekki komið upp, hér hjá okkur frá því að skólinn var stofnaður. Frá því að Covid-19 veiran komst á kreik í Kína og þar til við vorum sett í samkomubann, 13. mars, höfðu hlutirnir gerst í raun með veldisvaxandi hætti.
En það sem þið og starfsmenn skólans, sérstaklega kennarar og stjórnendur, tóku í fangið þennan föstudag, var stærri breyting en flestir átta sig á. Á örfáum mínútum breyttust allar forsendur. Þessi hlýlegi vinnustaður okkar tæmdist og allt ykkar nám fór fram með fjarkennslusniði.

Það var sitthvað merkilegt sem gerðist þá strax. Það var rétt eins og allir vildu taka höndum saman og gera sitt besta til þess að við næðum að klára önnina og litu svo á að þetta væri ekki eins mikið mál og það í raun var. Nemendur skólans, kennarar og annað starfsfólk, forráðamenn, tóku þessu af æðruleysi.
Það er nú ýmislegt sem er minna um sig og meira umdeilt en þetta ferli.
Samkomubannið átti sér reyndar aðdraganda, mun lengri aðdraganda. Ég get alveg játað að út frá upplýsingum sem við fengum frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu mátti búast við einhverskonar lokun. Þegar vika- tíu dagar voru liðnir af mars sá ég fyrir mér að þetta gæti staðið fram yfir páska. Það voru þrjár vikur í páskafrí, páskafríið ellefu dagar, sem sé tæpar fimm vikur fram yfir páska og svo myndi skólastarf hefjast á ný. Eftir um tvær vikur sá maður að það væri óhófleg óskhyggja.
Ferlið sem fór af stað var ótrúlegt. Kennarar ykkar sýndu mikið æðruleysi og tóku höndum saman um að leysa þetta mál, vegferð sem enginn vissi hversu löng yrði. Og þið gerðuð það líka. Tókuð upp nýja starfshætti, án þess að komast í skólann, án þess að kvarta og hér eruð þið. Vel gert. Kannski voruð þið betur undir þessa breytingu búin en við töldum? Og þá hefur okkur tekist vel!

Það er fleira. Það fór líka af stað bylgja velgjörða. Tónlistarmenn og leikarar, góðgerðarsamtök og velvildarmenn þeirra skunduðu andlegri heilsu til stuðnings!
Þá reyndu menn að leysa ýmis vandamál. Sbr. Þetta sem ég fékk frá Kórstjóranum honum Stefáni Þorleifssyni. Hann skrifar
Þetta verkefni kom til þegar hefðbundið skólastarf var ekki í boði lengur vegna Covid 19.  Kór Flensborgarskólans gat ekki lengur æft saman og þátttakendur fóru flestir til síns heima.  Einn þátttakandi tók þátt í verkefninu frá sínu heimalandi, Kína.

Stjórnandi kórsins ákvað að útsetja lagið “Svarthvíta hetjan mín” með stríðnisglampa í augum vitandi það að Erla aðstoðarskólameistari hafði sungið það á sínum tíma 🙂 Einn kórfélaga sá um bassaleik.  Stjórnandi sendi síðan hljóðskrár með undirleik auk þess sem hann söng hverja rödd fyrir sig svo kórfélagar ættu auðveldara með að læra sinn part.  Kórfélagar æfðu sinn part og sendu svo videó af sér syngja lagið í gegn.  Úr varð lokaverkefni kórfélaga, sem sést á myndbandi
Stjórnandi kórsins í ár var Stefán Þorleifsson.

Að auki frá íþróttakennurum, myndlist, starfsbraut og án efa fleira
Loks verð ég að nefna annað verkefni sem því miður féll niður vegna COVID-19 en það var söngleikur NFF, Mamma Mía og hér er örstutt upprifjun á því máli:

Margt fleira mætti nefna.
Hvað lærðum við af þessu? Jú það eru til náttúrulegar hættur sem geta ógnað okkur. Vissulega getur verið gott að loka sig af endrum og sinnum, loka landamærum, en ljóst má vera að stóra lausnin liggur í alþjóðlegu samstarfi. Og, fyrst við gátum tekið höndum saman með þessum hætti og dregið úr neyslu, flugferðum, bílferðum og pappírsnotkun þá kannski getum við tekið eitthvað slíkt inn í framtíðina og bætt aðstæður á plánetunni okkar.
Síðast en ekki síst að taka með okkur hugarfarið, hugarfar stuðnings, vináttu og samstöðu til að láta góða hluti gerast.
Gleymum því ekki.

Lokaorð skólameistara
Nú er komið að kveðjustund!
Hvaða skilaboð á ég nú að senda ykkur með út í hana veröld, sem bíður ykkar og þarf á ykkar jákvæðu hugsun og vinnu að halda?
Í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum (ég ætla ekki að fara að blasta um þá) snýst lífið oft um það hverjum tekst best að svara fyrir sig, slíkt er talin mikilvægur eiginleiki. Raunin er samt sú að það sem er mikilvægasti eiginleikinn í hverju samtali er ekki að kveða aðra í kútinn heldur hlusta á aðra og láta þá finna að maður hafi hlustað.
Slík umhyggja og umhyggja yfirleitt er einhver dýrmætasti eiginleiki mannanna og raunar allra spendýra held ég. Skáldið Stein Steinarr líkti lífinu við spil. Nokkuð góð líking, því þegar spilin hafa verið gefin þá er það okkar að spila úr þeim.
John Lennon sagði: „Lífið er það sem hendir mann á meðan maður er upptekin við að skipuleggja annað“ (Life is what happens when you are busy making other plans). Og ég nefni þetta við ykkur vegna þess að eins og ég segi svo oft þá munu hlutir gerast sem þið gátuð ekki séð fyrir og það verður ykkar að velja og hafna. Þar mun hjartað ráða för. Og munið að maður þarf að sýna sömu reisn og hugarró í áföllum og í sigrum.
En mín ráð til ykkar eru. Ekki velja léttu leiðina og munið að mótlæti er ekki endilega persónulegt. Ekki fara í manninn heldur málefnið. Það að fá einhvern til að rýna verkin manns kemur oftar að gagni en ekki.
Oft í sögu mannkyns höfum við séð tíma erfiðleika, eins og nú. Hættulegasti tíminn er þegar hlutirnir virðast komnir á betri leið og farið að hilla í blóm í haga. Þá þarf að gæta sín á lýðskrumi. Einhvers staðar stendur. „Sýndu traust en sannreyndu samt.“ Okkur veitir ekki af efanum nú um stundir, að ganga rösklega til verka en muna að ef eitthvað lítur út fyrir að vera of gott til að vera satt, – þá er það líklega hvorki gott eða satt.
Hvað bíður manns eftir framhaldsskólaútskrift? Það veit enginn og lífið mun taka beygjur sem þið sáuð ekki fyrir. Ég vona að þið farið glöð í bragði, með smá trega en fyrst og síðast stolt af því hvaðan þið komið, því þið eruð nú sem grein af þeim mikla meiði sem Flensborgarskólinn er og saga hans.
Það er máske veganesti mitt til ykkar. Í þessum undarlega heimi átaka um öryggi, umhverfi og ekki síst baráttu við farsótt sem hefur lamað heiminn og hagkerfi okkar, þá veitir okkur ekki af því að einbeita okkur, finna eigið jafnvægi, umhyggju fyrir umhverfi okkar og fólkinu sem þar er að finna, einbeita okkur að jákvæðu hugarfari, samfélagslegri ábyrgð og lausnarmiðaðri skapandi hugsun.
Munið að það er alla jafna betra að gera eitthvað en ekki neitt. Ég vona að okkur hafi tekist ætlunarverk okkar, – að veita ykkur almenna menntun, að við höfum náð að glæða sálargáfurnar, auka þekkinguna og styrkja siðferðislega hæfileika ykkar. Nú er boltinn hjá ykkur. Munið að við verðum aldrei fullnuma. Þess vegna leitum við áfram að því sem bætir líf okkar, en ekki síður líf annarra. Það er gaman að breyta heiminum, krefjandi, tekur tíma, en gaman.
Farnist ykkur vel, kíkið við og leyfið okkur, sem eftir sitjum, að heyra af ykkur.
Framtíðina eigið þið. Vegurinn sem þið farið er ykkar vegur. Hann getið þið farið með öðrum en aðrir geta ekki farið hann fyrir ykkur.