Creditinfo birti á dögunum í 11. sinn lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki fyrir rekstrarárið 2019. Í ár eru 842 fyrirtæki á listanum (2% allra virkra fyrirtækja á Íslandi), þar af 76 í Hafnarfirði eða 9%. Einungis 13,23% forstjóra eru konur og 12,7% konur í framkvæmdastjórnum fyrirtækjanna.

Af 76 hafnfirskum fyrirtækjum eru í toppsætunum þremur í hópi stórra fyrirtækja Stofnfiskur hf. (42. sæti), Advania Data Centers ehf. (74.) og Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. Efstu meðalstóru fyrirtækin eru Saltkaup ehf. (13.), SSG Verktakar ehf. (16.) og Ingvar og Kristján ehf. (21.). Í flokki lítilla fyrirtækja eru svo þessu efst: Reklar ehf. (18.), Stál og suða ehf. (45.) og Ás fasteignasala ehf. (48.).

Hér má sjá listann í heild, en hann var kynntur með útgáfu sérblaðs Morgunblaðsins, Creditinfo og Viðskiptamoggans fimmtudaginn 22. október.

Fyrirtækjunum fækkar á milli ára

Framúrskarandi fyrirtækjum fækkar lítillega á milli ára en í fyrra voru 887 fyrirtæki á listanum. Að mati sérfræðinga hjá Creditinfo gæti fækkunin á listanum bent til þess að einhver kólnun í íslensku atvinnulífi hafi átt sér stað óháð COVID. Sú staðreynd að fækkunin er hlutfalls-lega lítil er hins vegar gott merki um að íslenskt atvinnulíf stendur sterkum fótum, sem skiptir máli í því áfalli sem COVID-19 faraldurinn er fyrir íslenskt efnahagslíf.  

Til að teljast til Framúrskarandi fyrirtækja þurfa fyrirtæki að uppfylla ströng skilyrði um stöðugan rekstur þrjú ár aftur í tímann. Skilyrðin hafa fram að þessu öll verið fjárhagsleg en frá og með næsta ári verður sú nýbreytni á að sjálfbærni verður kynnt inn sem skilyrði þess að fyrirtæki komist á lista Framúrskarandi fyrirtækja.   

Flest meðalstór, næst stór og síðast lítil

Flest fyrirtæki á listanum eru meðalstór eða 384 talsins, 237 stór fyrirtæki og 221 teljast lítil. Íslenska Útflutningsmiðstöðin er í efsta sæti í flokki meðalstórra fyrirtækja á listanum og þar á eftir Logos og Men and Mice. Í flokki minni fyrirtækja var Hlaðir efst á lista og þar á eftir komu Heyrnartækni og Ó.D. ehf. Í flokki stórra fyrirtækja er Eyrir Invest í efsta sæti og kemur jafnframt nýtt inn á lista. Í öðru og þriðja sæti eru Marel og Landsvirkjun. Á listanum er jafnframt að finna fjölda nýrra stórra fyrirtækja, auk Eyris Invest hf; Landsnet hf., Útgerðarfélag Reykjavíkur hf., Dominos Pizza, Iceland Seafood International hf., Lýsi hf. og Arctic Adventure hf.  

Það fyrirtæki sem greiddi hæstu skattana fyrir rekstrarárið 2019 var Landsvirkjun en félagið greiddi ríflega 7 milljarða króna í skatta. Þar á eftir greiddi Marel rúmlega 4 milljarða króna í skatta og Össur tæplega 2,6 milljarða króna.  

Byggingarfyrirtækjum á lista fjölgar en fyrirtækjum í ferðaþjónustu fækkar

Það sem einkennir listann í ár er að byggingarfyrirtækjum fjölgar líkt og í fyrra og eru nú orðin 115 talsins. Ferðaþjónustufyrirtækjum fer fækkandi eða frá 80 fyrirtækjum í fyrra niður í 64 í ár. Þá fækkar fjármála- og vátryggingafélögum á lista sömuleiðis og eru þau nú 30 miðað við 41 á síðastliðnu ári.  

Líklegar ástæður fyrir fækkun ferðaþjónustufyrirtækja geta verið að áhrifin af falli Wow Air koma fyrst í ljós í ársreikningum ferðaþjónustufyrirtækja fyrir árið 2019 auk þess sem einhverra áhrifa frá COVID-19 faraldrinum er þegar farið að gæta í rekstri þeirra.  

Í ár detta nokkur stór fyrirtæki af listanum um helmingur þeirra vegna taprekstrar á síðastliðnu uppgjörsári, um 20% þeirra skiluðu ekki ársreikningi í tíma og 25%  detta út vegna lækkunar í lánshæfismati  

Hægfara bætingar á hlutföllum kynja í stjórnendastöðum

Í 11 ár hefur Creditinfo einnig unnið fylgst jafnframt með þróun á kynjahlutfalli forstjóra fyrirtækjanna, í stjórnum og framkvæmdastjórnum þeirra. Af 842 fyrirtækjum eru 13% forstjórar konur eða 109 talsins og 87% karlar eða 733 talsins. Bætingin á kynjahlutfalli í stjórnum hefur verið mjög hægfara á þessum ellefu árum sem listinn hefur verið unninn en því miður er önnur staða  varðandi kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum. Á árinu 2009 var hlutfall kvenna í stjórnum 19.9%  og í ár er það 25,3%. Hlutfalll kvenna í framkvæmdastjórnum 2009 var 17,6% og í þetta sinn er það einungis 12,7%.  

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, segist sjá nokkuð góðan stöðugleika í rekstri á milli ára og fjórða árið í röð sé fjöldi fyrirtækja á lista svipaður, en það séu ákveðnar breytingar á listanum í ár. Hún segir einnig að það verði áhugavert að sjá hvernig áhrif Covid faraldursins verði  á íslensk fyrirtæki og lista Framúrskarandi fyrirtækja að ári.

Skilyrði Framúrskarandi fyrirtækja:  

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3  
  • Ársreikningi skilað lögum samkvæmt eigi síðar en átta mánuðum eftir uppgjörsdag  
  • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo  
  • Framkvæmdarstjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK  
  • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár  
  • Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu þrjú ár  
  • Jákvæð ársniðurstaða síðustu þrjú ár   
  • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár  
  • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár 

Forsíðumynd/Olga Björt