Badmintonfélag Hafnarfjarðar hélt upp á 60 ára afmæli í Íþróttahúsinu við Strandgötu í gær, laugardag. Á sama tíma var opið hús í íþróttahúsinu og hægt var að prófa bæði badminton og borðtennis, ýmsar þrautir og gæða sér á veitingum.

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, og formaður Badmintonfélags Hafnarfjarðar, Hörður Þorsteinsson, skrifuðu undir samning um að BH taki við rekstri Íþróttahússins við Strandgötu um næstkomandi áramót. Um er að ræða tímamótasamning fyrir BH, sem tryggir því betri rekstrargrundvöll og þar með betri þjónustu við iðkendur og aðstandendur þeirra.

Ljósmyndari Hafnfirðings, Rósa Stefánsdóttir, rétt missti af undirritun samningsins, en tók þessar skemmtilegu myndir, sem fanga ágætlega það sem boðið var upp á í afmælinu.