Það mæðir mikið á Hafnfirðingnum Kjartani Hreini Njálssyni þessa dagana, en hann sinnir hlutverki aðstoðarmanns framlínuflokks almannavarna vegna Covid-19 veirunnar. Í júní fyrra sagði Kjartan störfum sem ritstjóri Fréttablaðsins og gerðist aðstoðarmaður landlæknis, sen er Alma Möller. Hafnfirðingur ræddi við Kjartan, sem er handviss um að þessi krísutími sé af þeirri stærðargráðu að hann muni breyta heiminum sem samfélagi.

Kjartan, Alma og Þórólfur á góðri stundu. Mynd aðsend.

Auk Kjartans eru Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í raun starfsfólk almannavarna á meðan þetta ástand varir. Þau eru með bækistöðvar í húsi almannavarnadeildar lögreglustjóra í Skógarhlíð. Kjartan segir að þríeykið í framlínunni hafi komið einhvern veginn eins og fullmótað inn í þessi hlutverk. „Í raun eru þau ekkert vön að vera svona ofboðslega mikið í kastljósi fjölmiðlanna. Mér hefur fundist þetta svo merkilegt hvað þau hafa átt auðvelt með að stíga inn í það og dáist að þeim fyrir það.“

Daglegir fundir ákveðnir strax í upphafi
Ákveðið hafi verið strax í upphafi, þegar almannavarnir voru virkjaðar, að hafa daglega upplýsingafundi í beinni útsendingu. „Við finnum að fundirnir virka til að koma upplýsingum áleiðis, en það sem ég hef einnig áttað mig á er að fundirnir eru ákveðin jarðtenging fyrir almenning. Upplýsingar koma víða frá og í því flóði er mikilvægt að framvarðasveitin segi það helsta og svari spurningum. Við viljum líka fá sem flestar raddir þar sem fulltrúa hópa eru með til að útskýra þær mörgu hliðar á samfélaginu sem veiran hefur áhrif á.“

Frá stöðufundinum í dag, þar sem Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur var gestur. Mynd/skjáskot úr útsendingu.

Vinnudagur Kjartans hefst 7:30 á símtölum frá fjölmiðlum, þar sem þeir taka stöðuna fyrir daginn. Hann er svo kominn í Skógarhlíð um klukkan 9 þegar börnin hans erum komin í skólana sína. Kjartan er svo kannski til kl 18 eða 19 og svo svarar hann tölvupóstum sem þarf eftir það. „Ég þarf ekki ennþá að vera aðskilinn frá fjölskyldunni fæ að fara heim. Það gæti samt alltaf gerst og þá tek ég bara því eins og hverju öðru verkefni. Við ákváðum strax að vera í miklu og góðu og miklu sambandi við fjölmiðla því þeir eru okkar leið til að ná til almennings. Halda engu frá. Þess vegna er kannski óvenju mikið álag núna en þetta líður hjá og ég get farið að stimpla mig almennilega út.“

Mikill áhugamaður um lýðheilsu

Eftir að hafa starfað lengi í blaðamennsku og síðar sem ritstjóri Fréttablaðsins ákvað Kjartan að taka sér góða pásu frá því. „Fjölskyldulífið bauð ekki lengur upp á slíkt. Það var orðið of mikið álag. Á þeim tímapunkti vildi ég geta sinnt ungum syni mínum betur í stað þess að konan væri bara að tækla það. Mér fannst svo frábært að fá þetta starf, aðstoðarmaður landlæknis og halda áfram að spá í hluti sem ég hafði svo mikinn áhuga á sem blaðamaður, sem er lýðheilsa. Fyrir mig sem hefur svo mikinn áhuga á þessu, þá er þetta gríðarlega áhugaverðir tímar, þ.e.a.s. að taka þátt í allri þessari vinnu. Manni leiðist ekki í vinnunni, það er óhætt að fullyrða það,“ segir Kjartan.

Kjartan segir Ölmu vera einstaklega góðan stjórnanda. Mynd/skjáskot úr útsendingu.

Spurður hvernig sé að starfa með landlækninum Ölmu segir Kjartan að hún sé algjörlega stórkostleg. „Ég vissi bara af henni í gegnum blaðamennskuna og hafði aðeins talað við hana. Og ég vissi að hún væri ákveðin og sterk kona, sem hún sannarlega er. Þegar ég kynntist henni lærði ég svo að hún er þessi góða blanda af ákveðni og líka húmoristi og á auðvelt með að slá á létta strengi. Það er gott að tala við hana og hún sér hlutina í víðu samhengi, eins og læknar gjarnan gera. Eitt af því sem einkennir góðan stjórnanda er að kunna að hrósa fyrir framan aðra en gagnrýna frekar sem maður á mann á bakvið tjöldin. Alma er einstaklega góð í þessu og reyndur stjórnandi og veit hvernig hún á að fá fólk í lið með sér. Og hún hvetur líka okkur öll til að passa upp á okkur og fara vel með okkur og hvílast,“ segir Kjartan og bætir við að það sé algjört lykilatriði að starfa við það sem veiti einhverja ánægju. „Það hjálpar manni á svo margan hátt. Ég er þakklátur fyrir að hafa verið þannig í störfum meira og minna alltaf.“

Allar mikilvægustu upplýsingar frá almannavörnum er að finna á síðunni covid.is

Fyrsti faraldur veira síðan 1918 sem veldur öndunarfærasjúkdómum sem ekki er bóluefni við

Kjartan tekur sérstaklega fram að aðstæður og ástandið í kjölfar Covid-19 sé mikilvægur skóli í því hvernig tekist sé á við slíkt. „Þetta er áskorun af þeirri stærðargráðu að þetta fer í reynsubankann hjá allri heimsbyggðinni. Það var hér kynslóð uppi fyrir þegar spænska veikin reið yfir árið 1918. Sá faraldur hafði umtalsverð áhrif á þá kynslóð og mótaði hana. Ég held að þetta muni móta nútímakynslóðir á þann hátt að við verðum dálítið breytt samfélag. Við höfum ekki staðið frammi fyrir neinu sambærilegu síðan 1918, því þetta er í fyrsta sinn síðan þá sem við erum með faraldur veiru sem veldur öndunarfærasjúkdómum sem smitast svona auðveldlega á milli fólks og við erum ekki með bóluefni við henni. Það setur umfang þessara aðgerða dálítið í samhengi. Þetta er sambærilegt verkefni þótt við teljum þetta ekki eiga eftir að hafa eins alvarlegar afleiðingar.“

Borið hefur á ýmsum gagnrýnisröddum um störf og ákvarðanir framlínusveitarinnar og Kjartan segir þær raddir mikilvægar. „Rörsýn á það sem við erum að gera má ekki vera til staðar. Gagnrýnin er góð og sýnir virka þátttöku og upplýsingu. Við kæmumst ekki langt ef við fengjum enga gagnrýni. Á tímum eins og núna er þó eiginlega ekki tími fyrir neina aðra hugmyndafræði en þá sem snýst um að bæla hættunni frá. Fólk sem áður var öndverðum meiði um flest, sameinast núna um þetta markmið,“ segir Kjartan.

Víðir Reynisson, þegar hann ávarpaði þjóðina beint og hvatti hana til að hafa veirulausan klukkutíma á dögunum. Mynd/skjáskot úr útsendingu.

Mikilvægt að leiða hugann að því mikilvægasta í lífinu

Á stöðufundunum hefur ekki bara tölfræði bláköldum veruleika verið skellt fram, heldur hefur framlínan einnig hvatt fólk til að leiða hugann að því fjölmörgu sem skiptir raunverulegu máli í lífinu. „Það er svo mikilvægt að þótt þetta séu foræmalausir tímar, þá má ekki vera þannig að daglegt líf okkar raskist það mikið að við eigum erfitt með að sjá það jákvæða í aðstæðunum. Við viljum gera fólki það kleift á þessum fundum á sama tíma og við erum að taka ákvarðanir sem sterta daglegt líf allra með svo miklum hætti. Þetta er erfiður dans að stíga og við erum alltaf að læra. En við teljum að þetta hafi gengið alveg ágætlega hingað til,“ segir Kjartan, sem finnur til mikillar ábyrgðar í starfi sínu og finnst skattgreiðendur eiga heimtu á því að hann standi sig.