Um 300 hafnfirsk dorgveiðibörn á aldrinum 6-12 ára munduðu veiðarfærin á Flensborgarhöfn í blíðviðrinu í dag og kepptust þar um að veiða furðulegasta fiskinn, stærsta fiskinn og flestu fiskana. Einn og sami fiskurinn reyndist bæði furðulegastur og stærstur. Vinningshafar fengu veiðistöng og bikar að gjöf fyrir aflann og árangurinn.

Þessi árlega dorgveiðikeppni leikjanámskeiðanna í Hafnarfirði, sem jafnframt er opin öllum hafnfirskum börnum á aldrinum 6-12 ára, er ein fjölmennasta dorgveiðikeppni landsins. Þátttakendur telja á hundruðum ár hvert og hefur keppnin náð að stimpla sig inn í hug og hjörtu bæði barna og foreldra og forráðamanna sem oft á tíðum fylgjast spenntir með á hafnarbakkanum. Þrjú ungmenni fengu verðlaun í ár. Jóel Ingi Ragnarsson vann bæði keppnina um Furðufiskinn og stærsta fiskinn fyrir einn og sama fiskinn. Um var að ræða rauðmaga sem reyndist 436gr. Þær Aldís Von Árnadóttir og Oddvör Skorastein Sigurðardóttir urðu svo sameiginlegir sigurvegarar um flestu fiskana.

Í um 30 ár hefur Hafnarfjarðarbær staðið fyrir þessari dorgveiðikeppni. Leiðbeinendur sumarfrístundar ásamt starfmönnum úr vinnuskólanum voru með öfluga gæslu á meðan á dorgveiðikeppni stóð auk þess sem Siglingaklúbburinn Þytur var með björgunarbát siglandi um svæðið.

Olga Björt Þórðardóttir tók meðfylgjandi myndir í dag og einnig verða myndir frá keppninni birtar í tölublaði Hafnfirðings sem kemur út 1. júlí.