Hið vinsæla og rótgróna fyrirtæki Pylsubarinn í Hafnarfirði á 30 ára afmæli um þessar mundir. Fyrirhuguð er stækkun húsnæðisins til að auka þægindi fyrir viðskiptavini. Eigandi Pylsubarsins, Pétur Viðarsson, hlakkar til að fagna þessum merku tímamótum með sínu fólki.

Pétur með Pylsubarinn í baksýn.
Pétur Viðarsson og fjölskylda keyptu Pylsubarinn í maí í fyrra og segir hann undanfarið ár hafa verið í sann erfitt og gefandi. „Þetta var stress fyrsta sumarið þegar ég var að ná utan um hlutina. Ég var oft mjög þreyttur en samt glaður þetta er bara svo skemmtileg vinna og reksturinn hefur gengið vel. Ég er líka afar þakklátur fyrir hversu vel mér hefur verið tekið.“ Kappkostað sé að hafa opið sem oftast eins og í tengslum við viðburði þar sem alla jafna eru rauðir dagar því Pétur vill að viðskiptavinir geti reitt sig á þjónustuna. Starfsfólkið sé líka ánægt með að fá stórhátíðarkaup þegar svo ber undir. „Ég er líka með frábært starfsfólk sem er gott teymi og bara leysir öll vandamál jafn óðum.“

Borgarar eru meðal allra vinsælustu veitinga sem Pylsubarinn býður upp á.

Pétur og hans fólk hefur verið óhrætt við að prófa nýja hluti.
Breitt aldursbil viðskiptavina
Pétur segist afar ánægður með hversu vel hefur verið tekið í nýjungar á matseðlinum í bland við það gamla góða. „Ein kona kom um daginn og spurði hvort hreindýraborgarinn sem var boðið upp á í desember verði ekki örugglega aftur. Við erum með gott samstarf við Kjötkompaní til að bjóða upp á úrvals hráefni. Fólk gerir sér ferð úr Mosfellsbæ til að koma hingað og frændsystkini mín (4 og 8 ára) vilja ekki fara neitt annað að fá sér að borða. Aldursbil viðskiptavina er mjög breitt og það er gaman að spjalla við fólkið sem hingað kemur.“

Teikningar af fyrirhugaðri stækkun Pylsubarsins í vor. Mynd aðsend.
Til stendur að stækka skýlið næsta vor og setja m.a. fleiri sæti meðfram glerinu. „Þetta verður heilmikill munur og enn meiri þægindi fyrir okkar góðu viðskiptavini og þessi staðsetning er líka svo mikilvæg fyrir reksturinn,“ segir Pétur, sem hlakkar til að fagna merku tímamótanna í afmælisvikunni og ætlar að bjóða upp á fjölda tilboða og spennandi nýjungar á matseðli.
Myndir/OBÞ.