Styrkir til verkefna og viðburða voru afhentir við hátíðlega athöfn í Hafnarborg í gær, síðasta vetrardag og hlutu 22 verkefni styrk að þessu sinni. 

Menningarstyrkþegar og fulltrúar þeirra, ásamt bæjarlistamanninum. Mynd: Hafnarfjarðarbær.

Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar afhenti í dag formlega menningarstyrki fyrri úthlutunar ársins 2019. 22 verkefni hlutu styrk að þessu sinni; einstaklingar, menningarhópar og samtök sem eiga öll það sammerkt að tengjast Hafnarfirði á einn eða annan hátt. Sú skemmtilega hefð hefur skapast fyrir því að afhenda styrkina formlega síðasta vetrardag eða um leið og tilkynnt er um val á bæjarlistamanni ársins. Styrkir menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðarbæjar eru afhentir tvisvar sinnum á ári til aðila og verkefna sem líkleg eru til að auðga og dýpka enn frekar listalíf bæjarins og byggir úthlutunin á mati á umsóknum. Heildarupphæð styrkja í þessari fyrri úthlutun er kr.- 6.080.000. Samtals verður úthlutað 11.000.000.- kr. í formi menningarstyrkja á árinu 2019. Að þessu sinni leggur menningar- og ferðamálanefnd til að gerðir verði samstarfssamningar til þriggja ára við tvo aðila, þeir samningar verða lagðir fyrir bæjarráð til samþykktar. Auglýst verður eftir umsóknum fyrir síðari úthlutun ársins 2019 í ágúst.