Á miðnætti tóku gildi nýjar reglur um samkomutakmarkanir, sem heilbrigðisráðherra boðaði fyrir helgi, og mega 200 koma saman í stað 100 áður. Þá er mælst til þess að fólk virði eins metra fjarlægðarreglu í stað tveggja.

Breytingarnar eru í samræmi við tillögur sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi til ráðherra á miðvikudag. Nú mega sundlaugar og líkamsræktarstöðvar taka á móti 75% af hámarksfjölda gesta í stað 50% áður. Einnig er snerting heimiluð í íþróttum, sviðslistum og annarri menningarstarfsemi, en 200 manna takmarkanir á áhorfendum gilda í rými og eins metra regla.

Opnunartími vínveitingastaða verður áfram takmarkaður til kl. 23.00, en þessi nýja reglugerð gildir til miðnættis 27. september.