Alexandra Líf Arnarsdóttir, 18 ára Hafnfirðingur, var dúx Flensborgarskóla á haustönn. Hún útskrifaðist af viðskipta- og hagfræðibraut á íþróttaafrekssviði á aðeins tveimur og hálfu ári. Alexandra Líf á 14 ára bróður og þriggja ára systur.

Alexandra Líf ásamt skólameistaranum Magnúsi Þorkelssyni. Mynd/Flenslborgarskólinn.

Alexandra er núna að vinna á leikskóla en stefnir á að fara í háskóla í haust. „Ég er alls ekki viss um hvað mig langar að læra en er mikið að pæla í fjármálaverkfræði eða tölvunarfræði. Mig langar líka að fara í skóla erlendis einhvern tímann,“ segir Alexandra Líf, en hennar helsta áhugamál er handbolti. Hún spilar með meistarflokki Hauka, er í U19 ára landsliðinu og hefur verið að þjálfa yngri flokka Hauka í nokkur ár. „Mér finnst líka mjög gaman að fara á snjóbretti og ferðast erlendis. Ég hef ekki hugmynd um hvað mig langar að starfa við í framtíðinni en ætla mér að vera í handbolta í mörg ár í viðbót.“ Spurð um lífsmottó segist Alexandra Líf alltaf hafa tileinkað sér gullnu regluna; að koma fram við aðra eins og hún vill að aðrir komi fram við hana. „Ég hef einnig tileinkað mér að vera mjög skipulögð og gera hlutina strax en ekki að fresta þeim.“

 

Forsíðumynd/OBÞ: Alexandra Líf með kettlinginn Snúð.