Ákveðið hefur verið að rúmlega þrefalda framleiðslu á astaxanthíni hjá líftæknifyrirtækinu Algalíf í Reykjanesbæ með því að stækka verksmiðju fyrirtækisins um rúmlega helming. Ársframleiðslan mun fara úr rúmum 1.500 kg af hreinu astaxanthíni í rúm 5.000 kg. Hafnfirðingurinn Orri Björnsson er forstjóri fyrirtækisins.

Í frétt á vefsíðu Algalífs kemur fram að rúmlega eitt hundrað innlend störf verði til á framkvæmdatímanum 2021 til 2022 og að minnsta kosti 35 ný framtíðarstörf muni skapast hjá fyrirtækinu. Algalíf verði þannig eitt stærsta örþörungafyrirtæki í heimi og ársveltan muni nærri fjórfaldast. Stækkunin er að fullu fjármögnuð erlendis frá.

„Öll framleiðsla þessa árs er löngu seld og bróðurpartur framleiðslu næsta árs líka. Markaðshorfur eru mjög góðar og fjögurra milljarða erlend fjárfesting sýnir trú á því sem við erum að gera,“ segir Orri í fréttinni sem lesa má í heild sinni hér.

Mynd af síðu Algalífs.